ÍTF vill koma eftirfarandi yfirlýsingu á framfæri.

Samkvæmt lögum og reglugerðum KSÍ fer mótanefnd KSÍ með niðurröðun allra móta á þeirra vegum, leikdögum, leiktímum og leikstöðum. ÍTF fer með samninga- og markaðsmál efstu tveggja deilda karla og kvenna á Íslandi fyrir hönd aðildarfélaga. Á undanförnum árum hefur ÍTF komið sínum athugasemdum á framfæri við mótanefnd og þar af leiðandi sinni rödd að borðinu. ÍTF telur að það sé framfaraskref að félögin hafi meira um það að segja hvernig leikjum þeirra er raðað niður. Aftur á móti þá er það mótanefndar KSÍ að staðfesta leikdaga og leiktíma og hefur lokaákvörðun hvað þetta varðar. Allar breytingar á leikjum eru gerðar af mótanefnd KSÍ. ÍTF hefur unnið mjög vel með mótanefnd KSÍ á undanförnu og hefur það samstarf bara aukist með árunum. ÍTF er vissulega tilbúið að koma frekar að niðurröðun leikja í mótum og bera á því ábyrgð, en það þýðir þá að mótamál þurfa almennt að færast í auknum mæli til ÍTF.

Við fengum þau svör, að beiðni rétthafa mótsins, RÚV, að það væri ekki hægt að fresta bikarleiknum þar sem leikurinn gæti skarast á við fréttatíma RÚV. Stjórn ÍTF og framkvæmdastjóri fengu fyrst vitneskju um það á fréttamiðlum að mótanefnd KSÍ hafi óskað eftir því við Val að færa þeirra leik til kl 13:00. Það var því ekki á vitorði ÍTF að mótanefnd hefði reynt að færa umferð Bestu deildar kvenna.

Að okkar mati hefði verið lang einfaldast að færa bikarúrslitaleik karla um klst hið minnsta, eða til kl 17:00 eða jafnvel seinna. Eins og mótastjóri KSÍ hefur bent á var jafnframt möguleiki að færa alla síðustu umferð Bestu deildar kvenna yfir á sunnudag. Ekkert varð úr þeirri hugmynd að hafa bikarúrslitaleikinn seinna á laugardeginum og hefði öllum átt að vera það ljóst að þessi tveir viðburðir geta ekki verið ofan í hvor öðrum án þess að draga athyglina frá hvor öðrum.

ÍTF getur á engan hátt tekið ábyrgð á því hvenær bikarúrslitaleikur fer fram enda öll réttindi á bikarleikjum í höndum KSÍ og sjónvarpsrétthafa, RÚV, hvað varðar tímasetningar og annað. Það var mat ÍTF og er enn, að síðasta umferð í Bestu deild kvenna ætti að fara fram kl 14:00 laugardaginn 1.október og bikarúrslitaleikur ætti þá að fara fram nokkru síðar sama dag og helst ekki fyrr en kl 17:00,  þannig að báðir atburðir fengju þá athygli sem þeir vissulega eiga skilið.

Virðingafyllst,
ÍTF